Alveg að sofna

Þetta er náttúrulega bara krúttlegt! InLove 

 


Montblogg

Hér koma nokkrar fréttir af piltinum enda langt síðan mamman montaði sig síðast af unganum.

Bjarni Jóhann er byrjaður í leikskóla. Hann byrjaði 1. des sl. og það gengur svona ljómandi vel. Honum finnst afskaplega gaman að leika sér með krökkunum og er líka til í að taka þátt í allskonar föndri og uppákomum í leikskólanum. Fóstrurnar segja að hann sé algjört draumabarn, stilltur og prúður miðað við aldur og alla jafna í góðu skapi (hvaðan skyldi hann nú hafa það? :O).

Svo tekur hann þvílíkum framförum í máli þessa dagana og er farinn að setja saman einfaldar setningar. Orðum bætir hann við sig nánast daglega og mamman má hafa sig alla við að læra hvað hvert orð þýðir því framburðurinn er náttúrulega eins og við má búast hjá barni sem ekki er orðið tveggja. Dæmi um nýjustu orðin eru epli, snjór, grafa, eðla og púsla en það síðastnefnda er í miklu uppáhaldi hjá snáðanum.  Maður ætlar náttúrulega að rifna af stollti við hvert nýtt orð og kannski best að njóta þess því þess verður ekki langt að bíða að barnið samkjafti ekki, foreldrunum til mismikillar ánægju Smile Með auknum orðaforða breytast jú samskiptin líka og núna er hann farinn að svara manni og segja frá þegar maður t.d. spyr hann hvað hann hafi verið að gera á leikskólanum í dag, sem er afskaplega skemmtilegt.

Hann sönglar líka töluvert og það hefur aukist mikið eftir að hann bryjaði á leikskólanum. Uppáhalds lagið hans núna er afmælissöngurinn og má heyra sungið "ammaídaaa" (afmæli í dag) mörgum sinnum á dag hér á þessu heimili, en það er eina línan sem sungin er úr þessu annars ágæta lagi. Svo er jafnvel klappað og sagt "vei!" á eftir ef stubburinn er í sérstaklega miklu stuði Smile

Hann er stöðugt hlaupandi og hoppandi og skoppandi hér um öll gólf... mikið hvað hopp geta verið skemmtileg! Smile  Að sjálfsögðu fær einkabarnið daglega trampolínþjálfun í hjónarúmminu og hoppar þar og steypir sér kollhnísa af miklum móð. Svo hefur hann uppgötvað furður skuggamynda (þrátt fyrir akkúrat enga hæfileika móður hans á því sviði) og vill fá smá "brabra" sýningu á svefnherbergisveggnum þegar hann tekur sér pásu frá hopperíinu. Svo reynir hann að gera líka brabra á vegginn sjálfur... afksaplega krúttlegt!

Ekki er hægt að segja frá stráknum án þess að minnast á það að amma Dísa og afi Bjarni eru í alveg sérlega miklu uppáhaldi hjá honum. "ha amma?" eða "ha afi?" (ha=hvar er) eru spurningar sem maður má svara nokkrum sinnum á dag. Mikill gleðidans er stiginn þegar þau koma í heimsókn eða ef pilturinn er spurður hvort hann vilji fara og heimsækja þau. Og honum finnst svo gaman að láta þau passa sig að hann nánast ýtir foreldrunum út úr húsi þegar svo stendur á. Ekki amalegt það!

Að lokum er hér ein mynd af stráknum enda ekki annað hægt en að birta mynd af viðfangsefni pistilsins.

IMG_6056 

Eins og sjá má þykir kappanum skyr gott og borðar það með bestu lyst alveg sjálfur eins og reyndar allan mat nú orðið. Eftir slíkar æfingar má svo lesa matseðilinn af andliti og höndum piltsins svo það er allt eins og það á að vera í þeim efnum. Þá er nú gott að eiga nóg af þvottapokum á lítið trýni... Smile
Þess má annars geta að ein af ástæðum þess að lítið er bloggað hér er sú að erfitt er að ná góðum myndum af piltinum þessa dagana. Hann er ekki kominn á fyrirsætualdurinn ennþá og hunsar mann gjörsamlega þegar hann sér myndavélina á lofti. Við eigum því nóg af vanga- og hnakkamyndum af honum en fáar góðar þar sem þetta fallega andlit fær að njóta sín.


Öskudagur 2010

Í tilefni öskudagsins var grímuball í leikskólanum hans Bjarna Jóhanns. Hann var alveg steinhissa þegar hann mætti í leikskólann og allir voru í skrítnum fötum, meira að segja fóstrurnar líka! Hann var alveg sérstaklega gáttaður á einum á hans deild sem var í spiderman búning með grímu fyrir andlitinu og spurði mig í sífellu "haetta?" sem útleggst "hvað er þetta?" Grin

Sjálfur var kappinn froskur í tilefni dagsins enda hæfir það litlum hoppustrák vel....

Hér eru tvær myndir af honum sem teknar voru þegar búningurinn var mátaður fyrr í mánuðinum. Ég gleymdi alveg að taka myndir af honum í gær á aðal deginum. Þá var ég búin að setja aðra húfu á froskhausinn (brúna í stíl við sokkabuxurnar) en annars var hann alveg eins...

IMG 6093 breytt
Froskastrákurinn púslar...

 

 IMG 6098 breytt
Froskastrákurinn ræðir við mömmu sína (sjálfsagt um hvaða flugur eigi að vera í kvöldmatinn...)

 

img_6096_breytt.jpg

 ...kvakk kvakk!!


Pabbi! Pabbi!

Hér er eitt krúttmyndband af snáðanum InLove


Nýr púslari kominn í fjölskylduna

Við pabbi höfum fengið annan sterklegan kandidat í púsldeildina í fjölskyldunni; Bjarna Jóhann. Honum finnst mjög gaman að púsla og er fljótur að læra púslin sín utan að. Hann sýndi svo efnilega takta þegar hann vildi ólmur hjálpa mömmu sinni með jólapúslið á heimilinu eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi. Og auðvitað fékk hann að hjálpa til... alveg þangað til hann missti sig aðeins í gleðinni við að róta í púslkassanum og fór að henda púslunum til, þá var mamma hans ekki lengi að skutla piltinum á gólfið við miklar óvinsældir...

Tókuð þið eftir því að sá stutti er farin að tengja saman orð? Þessi elska er farin að segja "mamma mín" eins og heyrist þarna í byrjun myndbandsins en líka t.d. "gaga ma" sem þýðir taka mig eða taka af mér eftir samhenginu og "dattabara" sem þýðir datt bara. Svo bætir hann við sig nýju orði nánast daglega núna svo maður má hafa sig allan við að læra nýju orðin hans. Voða duglegur strákur og mamman náttúrulega að rifna úr monti Grin

Já og gleðilegt nýtt ár elskurnar mínar og takk fyrir það gamla!!


GLEÐILEG JÓL!!

Elsku vinir og vandamenn, við óskum ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Vonandi hittumst við sem flest á nýja árinu Smile

Bjarni Jóhann sendir ykkur sérstakt jólaknús fyrir að vera svona dugleg að forvitnast um hann hérna á síðunni þó móðir hans sé frekar löt við bloggið...

 IMG_5562_kroppad
Þessi mynd var tekin 28. nóvember sl. þegar snáðinn varð eins og hálfs árs. Mikið líður nú tíminn hratt hjá okkur!


Guðrún Helga í heimsókn

IMG 5470
Guðrún Helga kom í heimsókn um daginn (fyrir um mánuði síðan...) og þá var nú kátt í höllinni... þ.e. um leið og Bjarni var búinn að jafna sig á því sjokki að einhver annar krakki en hann væri að leika sér með dótið hans. Hér eru skötuhjúin að púsla saman.

IMG 5459
En þetta var samt mesta sportið - að keyra frænku um í leikfangavagninum.

Verst að Guðrún býr erlendis núna og getur því ekki komið aftur í heimsókn alveg á næstunni.


Kósíheit par exelence...

IMG 5485
Svona er voða gott að slappa svolítið af fyrir framan sjónvarpið eftir langan og strangan dag á meðan mamma eldar kvöldmatinn.
Þá er það annað hvort Bangsimon og fríllinn eða Bubbi byggir sem horft er á.
Mamman væri alveg til í að skipta við guttann af og til...


Duglegur að hjálpa mömmu

DSC07824
Svona eigum við nú duglegan strák. Við eigum auka moppuskaft og sá stutti hjálpar til við að moppa og eins og sést á myndinni tekur hann starfið afskaplega alvarlega Smile

Erik og Andrea eru hjón...

Á laugardaginn síðasta gengu Erik bróðir og Andrea í það heilaga. Giftingin var í Háteigskirkju og veislan í Turninum í Kópavogi og tókst hvorutveggja afskaplega vel. Hér eru nokkrar myndir frá deginum.

 a IMG 5224
Ísak Elí kom í smá heimsókn til okkar áður en við fórum í kirkjuna og fór með okkur þangað. Hér eru þeir frændur komnir í sitt fínasta púss. Ísak Elí var klæddur eins og pabbi sinn í "sjakket" og Bjarni í smóking eins og Bjarni afi.

a IMG 5264
Hér koma brúðhjónin í veisluna, sæl og glöð. Andrea var alveg gullfalleg eins og hennar er von og vísa og Erik bróðir var líka afskaplega fínn og sætur.

IMG 5371
Helena var blómastúlka ásamt Irmu Karen systurdóttur Andreu. Axel Haukur sem er með Helenu á myndinn var hringaberi. Þau stóðu sig rosalega vel í kirkjunni og voru líka afskaplega stillt í veislunni þar sem þau sátu og lituðu myndir í stórum stíl.

a IMG 5307
Litlu piltarnir tveir voru bara merkilega stilltir í kirkjunni enda fengu þeir að raða hinu ýmsasta góðgæti upp í sig og skoða allskonar dót. Þeir voru líka ósköp góðir í veislunni þó þar hafi verið heldur meira fjör - mikið hoppað og hlaupið. Hér er Ísak Elí í stuði við matarborðið. Algjört spons!

 

IMG 5367
Það var margt góðra gesta í veislunni en það var alveg sérstaklega gaman að sjá þessa litlu hnátu sem er hér með ömmu sinni. Þetta er nefninlega hún Guðrún Helga sem býr núna í Svíþjóð með foreldrum sínum. Hún og mamma hennar komu beint úr flugi í veisluna svo við vorum að hitta þær í fyrsta skipti síðan í mars. Það er ekki laust við að barnið hafi aðeins stækkað síðan þá Smile

IMG 5395
Hér er svo ein af brúðhjónunum að skera brúðartertuna. Takið eftir sykursvönunum, þeir voru sannkallað listaverk. Og kakan var alveg hrein dásemd; kókos, súkkulaði og hindber... namm!

 Enn og aftur til hamingju elsku brúðhjón! InLove


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband