Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
29.6.2011 | 20:35
17. júní 2011
3.9.2010 | 22:04
Bjarni á ferðalagi
Hér eru tvö stutt myndbönd frá hringferðinni. Það er óneitanlega þægilegt að ferðast með svona stóran strák sem hefur ofan af fyrir sér sjálfur í aftursætinu. Hér tekur hann "gulur rauður grænn og blár"...
...og svo getur líka borðað sjálfur þegar hungrið sverfur að...
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.8.2010 | 21:58
Myndir frá hringferðinni
Við fórum ásamt Erik bróður og fjölskyldu hringinn í sumar. Að sjálfsögðu var þetta afskaplega skemmtileg ferð enda bæði félagsskapurinn góður og landið fagurt. Hér eru nokkrar myndir úr ferðinni svona til gamans.
Eftir notalegt stopp í sundlaug Akureyrar fengum við okkur hinn fræga Brynju ís... sem er nákvæmlega eins og gamli ísinn í Ísbúð vesturbæjar. Ekki hef ég smekk fyrir því en ísnum voru engu að síður gerð góð skil...
Bjarni þurfti smá hjálp með ísinn en mátti hins vegar ekkert vera að því að bíða enda mikill ískall hér á ferð. Mamman þurfti að beita aflsmunar og brögðum...
Þessi litla kisa fékk smá smakk hjá okkur og naut þess vel miðað við svipinn á henni... eða er þetta heilafrost?
Það fór vel um okkur í Vaglaskógi þar sem við vorum fyrstu nóttina. Við Halldór og Bjarni vorum í fellihýsinu, afskaplega þægilegt svo ekki sé meira sagt. Hér les Helena stóra frænka fyrir strákana söguna um sætabrauðsdrenginn. Litli fangastrákurinn horfir íbygginn á myndirnar.
Frá Vaglaskógi keyrðum við í Hallormsstaðaskóg með viðkomu á hinum ýmsu stöðum á leiðinni.
Tvær ygglibrúnir við Goðafoss í blíðskaparveðri.
"Mamma þáðu!" Það sem pilturinn bendir á og mamma á að sjá er bullandi leirhver á hverasvæðinu Hverarönd við Námafjall.
Þetta var það sem krökkunum þótti skemmtilegast af öllu í ferðinni; að fá að henda steinum út í vatn! Hér erum við í Atlavík. Við vorum tvær nætur í Hallormsstaðarskógi, þeirri paradís á jörð. Þaðan keyrðum við upp á Kárahnjúka...
... og þar var töluvert öðruvísi um að lítast heldur en þegar við vorum þar síðast. Þá var útsýnispallur á Sandfelli sem nú er eyjan þarna úti í vatninu.
Frá Hallormsstaðarskógi keyrðum við austfirðina og gistum næstu nótt á Djúpavogi. Þar fengum við okkur gönguferð um bæinn og skoðuðum meðal annars mikið dvergasafn sem er þar við eitt húsið í þorpinu. Þetta fannst Bjarna afskaplega merkileg tjörn þó honum hafi fundist frekar fúlt að mega ekki henda einum einasta steini í hana.
Frá Djúpavogi keyrðum við svo yfir á Kirkjubæjarklaustur með viðkomu á helstu ferðamannastöðunum á leiðinni. Þar vorum við tvær nætur og skoðuðum svæðið í kring, m.a. Orrustuhól þar sem við fengum okkur nesti.
Er þetta krúttleg fjölskylda eða hvað?
Á Kirkjubæjarklaustri rigndi á okkur í eina skiptið í ferðinni en þá rigndi líka stanslaust í heilan dag.
Þó að okkur fullorðna fólkinu hafi þótt ami af rigningunni þá var ekki hægt að segja það sama um krakkana. Það var sko ekki leiðinlegt hjá þeim að hoppa og sulla í pollunum, á meðan við stóðum í því að taka saman í úrhellinu...
Og svo var haldið í bæinn, með viðkomu á nokkrum fallegum stöðum á leiðinni, m.a. Skógarfossi þar sem þessi mynd er tekin.
23.8.2010 | 21:24
Þrjú saman
Hér eru tvær myndir af Bjarna Jóhanni, Ísak Elí og Guðrúnu Helgu þegar þau hittust öll þrjú á ættarmótinu í sumar. Þau eru öll jafn gömul, þ.e. það munar 10 vikum á þeim elsta (Ísak) og þeim yngsta (Guðrúnu). Þetta eru nú meiri krúttibollurnar...
Svoona stór... eða var það upp upp upp á fjall?
Hehehe ég er að ná þér frænka...
29.5.2010 | 22:13
Tveggja ára pjakkur
Þessi litli súkkulaðidrengur er orðinn 2 ára! Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt þegar maður á svona fallegan og skemmtilegan fjörkálf til að njóta lífsins með
Ef hann er spurður hvað hann sé gamall réttir hann upp tvo putta og sýnir manni (þumal og vísifingur) og ef vel liggur á honum segir hann það líka; "tvegga áða". Þrátt fyrir að mikið hafi verið reynt hefur ekki tekist að ná mynd af honum sýna þessar listir...
Afmælisbarnið var reyndar lasið á afmælisdaginn sinn, með hálsbólgu og hita. Bömmer, því hann átti að fá kórónu í leikskólanum og allt! En hún bíður bara eftir honum og kannski er það líka bara lán í óláni, það er örugglega mjög skemmtilegt að eiga afmæli fleiri en einn dag þegar maður er bara tveggja...
Hann var alveg með á hreinu að pakkarnir sem hann fékk í gær væru "ammilipakki" handa "njadni" og að í þeim væru bílar. Sem var reyndar rétt, enda er gaurinn algjör bílagaur.
Mamma bakaði að sjálfsögðu súkkulaðiafmælisköku handa afmælisbarninu, sem reyndar borðaði afskaplega lítið af henni þar sem hún fór ekki vel í veika hálsinn. Þegar hann sá hvað var í ofninum leit hann á mömmu sína og sagði sigrihrósandi "ammilikaka!" Já, snáðinn er með þetta allt á hreinu. Honum fannst líka alls ekki leiðinlegt þegar afmælissöngurinn var sunginn fyrir hann, brosti út að eyrum alveg hreint
Myndin hér að neðan er reyndar ekki tekin í gær en á henni "brosir" Bjarni Jóhann myndavélabrosinu sína framan í myndavélina, sæll með sína súkkulaðiköku enda engin hálsbólga að trufla þegar þessi mynd er tekin.
Hér eru svo tvær til upprifjunar, teknar með árs millibili, á fyrsta sólarhringnum og við eins árs afmælið. Það gerist víst ansi margt á þessum fyrstu árum...
Og að lokum er hér smá myndband af afmælisdrengnum sem tekið var nú í kvöld (ef vel er að gáð hljómar eurovision undir) þegar hann bara rétt si svona hjólaði alveg sjálfur í fyrsta skiptið á þríhjólinu sínu... ekkert smá flottur tveggja ára gaur!
Vinir og fjölskylda | Breytt 30.5.2010 kl. 18:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.4.2010 | 20:46
Maður getur nú dillað sér!
22.4.2010 | 09:59
Bangsi fær að púsla
Bangsi fékk að púsla með Bjarna um daginn. Þá tók hann bangsa með sér og lét hann sitja við hliðina á sér í stólnum. Svo raðaði hann púslum á bangsa sem sat hinn glaðasti við hlið snáðans og mátti sig vart hræra fyrir kæti. Að lokum fékk bangsi svo hjálp við púslið.
Eins og sjá má ríkti mikil gleði við borðið.
Svona lifna leikföngin við daglega á þessu heimili. Það er t.d. alveg frábært að fylgjast með stráknum þegar hann er að tala við besta vin sinn Rebba, sem hann vill að sitji með okkur til borðs á morgnana.
19.4.2010 | 23:48
Ísak Elí 2 ára
Nú er Ísak Elí orðinn 2 ára og hér er ein mynd úr afmælinu þar sem þeir sitja frændur og gæða sér á súkkulaðiköku. Allt nýja dótið hans Ísaks (og reyndar bara allt dótið hans) var svo spennandi að þeir máttu varla vera að því að fá sér að borða og við rétt náðum að smella af þeim mynd áður en þeir voru rokknir af stað aftur.
Þeir leika sér voða vel saman og eru miklir vinir, þó stundum slettist aðeins upp á vinskapinn þegar deilur spretta upp um eignarhald og afnotarétt...
18.4.2010 | 12:42
Listamaður
Lítill listamaður með verk í smíðum í byrjun mars. Mamman átti að hnoða kúlur sem sá stutti tók svo og klessti niður á afar listfenginn hátt
Þess má geta að snáðanum finnst afar gaman að leira og enn semmtilegra að fá aðra til að leira fyrir sig