13.9.2008 | 14:04
Ungbarnasund
Þeir sem þekkja Halldór vita að þar er á ferð mikill sportisti sem stundaði af kappi hinar ýmsu íþróttir allt þar til Háskólanámið heltók hann. Það ætti því ekki að koma á óvart að hinn rúmlega þriggja mánaða sonur okkar sé nú þegar byrjaður í íþróttunum. Við erum byrjuð að fara með hann í ungbarnasund hér í Breiðholtslauginni, á laugardagsmorgnum og það er bara alveg frábært.
Bjarni Jóhann kann afskaplega vel við þetta, hann er ekkert hræddur við vatnið eða lætin en setur upp hinn mikla doktorssvip og spáir mikið í umhverfið.
Hér er hann kominn ofan í með mömmu sinni, sem er greinilega að segja eitthvað merkilegt við hann. Annars skiptumst við á að vera með hann ofaní, þó pabbi sé þar í aðalhlutverki. Hann brá sér bara upp á bakkann til að taka þessar myndir blessaður.
Sundkennarinn heitir Lóló og hún kemur og talar við alla krakkana í byrjun og enda hvers tíma. Þá spjallar hún aðeins við þau og lyftir þeim síðan upp og lætur þau standa, þ.e. þau þeirra sem það vilja og geta. Bjarni Jóhann er ekki alveg orðinn nógu styrkur til að standa lengur en sekúndubrot í einu í lófanum á henni Lóló, en það kemur allt, þetta var nú bara annar tíminn okkar. Pabbi náði mynd af snáðanum þar sem hann stendur næstum því í öruggum höndum Lólóar .
Svo er sungið og trallað saman í lauginni og nokkrar æfingar gerðar. Meðal þeirra er að láta börnin fljóta á bakinu og halda bara undir hnakkann á þeim. Þetta þykir Bjarna Jóhanni afskaplega gott, hann slappar alveg af og sýgur svo á sér puttana til að toppa notalegheitin.
Hefur maður það ekki gott? Svo undir lok tímans eru þau höfð upp við bakkann þar sem þau eiga að reyna að ná í dót sem maður setur fyrir framan þau. Bjarni er ekkert sérlega duglegur í þessu, hann starir bara í forundran á gúmmíendurnar og baðtærnar sem maður raðar á bakkann fyrir hann en reynir ekkert til að ná þeim. Í dag tókum við uppáhalds nagdóttið hans með til að hvetja hann en það skilaði litlum árangri. Þetta er svoddans prófessor, spáir bara og spekúlerar.
Svo þegar búið er að syngja bless sönginn og vögguvísuna úr Dýrunum í Hálsaskógi þá er bara að drífa sig upp úr, láta pabba klæða sig í fötin og fá sér svo sopa hjá mömmu áður en maður sofnar værum svefni, úrvinda eftir sundið.
Og svo er hérna ein brosmynd tekin við annað tækifæri enda fer lítið fyrir brosum í sundtímanum - það er hreinlega bara of mikið um að vera til að gefa sér tíma til að brosa til myndasmiðsins...
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:07 | Facebook
Athugasemdir
Heheh, fór inn á síðuna til að skammast yfir myndaskorti og þá biðu mín nýjar myndir ! Það er greinilega gaman í sundi og ég er viss um að unginn verður hrifnari og hrifnari af þessu með aldrinum. Verst að mamma gamla þarf að smyrja sig eins og múmía eftir hvern sundtíma ! Spil á mánudaginn Helga?
Svava S. Steinars, 14.9.2008 kl. 02:56
Vá hvað hann er afslappaður með þetta allt saman... Aron er alltaf pínu stressaður að fara í bað, hvað þá ef hann færi í sund! Hann er voða áhyggjufullur, ungur maður, ekki svona yfirvegaður prófessor eins og þinn ;) Og svo ótrúlega sætt bros þarna í endann... hlakka rosa til að klípa í hann!
Bjorgen-kjorgen (IP-tala skráð) 14.9.2008 kl. 04:55
ÆÐISLEGAR myndir!!!
Frábært hjá ykkur að drífa ykkur í ungbarnasund með snáðann. Þetta er örugglega æðislegt ... ég hef ekki fundið neitt ungbarnasund hér í Sydney, verð því bara að fara að kenna dúllunni minni að snorkla við strendur Ástralíu... hehe
Þúsund kossar og knús til brosmilda sundkappans
Lauga (IP-tala skráð) 14.9.2008 kl. 14:30
Já, prófessor Bjarni Jóhann kippir sér ekki upp við hlutina... nema ef vera skyldi við óhljóðin í Ísak Elí frænda sínum :O) Hann trompaðist úr hræðslu um daginn þegar við vorum í heimsókn hjá Ísak Elí, sem rak upp öskur og hræddi nánast með því líftóruna úr frænda sínum... ég hef bara varla heyrt hann gráta svona mikið síðan daginn sem hann fæddist og var dreginn blautur út í tilveruna .
Lauga - hlakka til að sjá snorkl-myndir af Guðrúnu Helgu :O)
Svava - innsmurða múmían gæti vel hugsað sér spil... verð í bandi.
Helga Guðrún og Halldór Pálmar, 15.9.2008 kl. 09:24
Jæja, þá er mín komin með leið á sund-myndunum og heimta nýjar!! Og hananú!
Björg (IP-tala skráð) 18.9.2008 kl. 20:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.