16.8.2009 | 22:33
Af einu og öðru
Jæja, áfram líður tíminn eins og óð fluga. Strákurinn okkar dafnar vel og tekur stöðugum framförum. Núna hleypur hann t.d. um allt, reynir að hoppa en nær ekki að lyfta báðum fótum í einu - ferlega krúttlegt - dillar sér og snýr sér í hringi þegar hann heyrir skemmtilega tónlist, eða tekur danssenu fyrir framan ofninn í eldhúsinu þar sem hann sér sjálfan sig speglast í hurðinni Skemmtilegast er þó að hoppa í hjónarúminu og reyna að stinga sér kollhnís eða láta sig pompa á rassinn.
Svo kann hann "upp upp upp á fjall...", þ.e. lyftir höndunum upp yfir höfuð og setur þær svo í gólfið þegar maður syngur "niður niður..." Hann dansar líka við "dansi dansi dúkkan mín" og "upp á grænum grænum himinháum hól..." en það eru aðeins flóknari hreyfingar og hann gerir bara nokkrar ennþá.
Hann er líka voða duglegur að leika sér, getur dundað sér heil lengi ef hann dettur í stuð en stundum vill hann bara þvælast í löppunum á mömmu sinni. Svo er afskaplega gaman að fara í boltaleik með pabba og hann hreinlega elskar að vera úti að leika og getur mokað og rólað nánast út í hið óendanlega. Og ekki er nú verra að hafa krakka til að leika við - nú eða þá fullorðna.
Orðaforðin eykst stöðugt, núna segir hann mamma, pabbi (baba), amma, afi (ai), nei (nenenenene), nammi (mammm mammm mammm), róla (buva), jæja, óóó, datt, ulla, dudda, segir hvað bíllinn, flugvélin, fíllinn, hesturinn, hundurinn, kisa, apinn, ljónið, fiskurinn, bíbí og uglan segir/gerir, gerir tákn fyrir meira (sem þýðir reyndar í hans huga "gemmér", notar það þegar hann vill eitthvað), kinkar kolli fyrir já og ýmislegt fleira sem ég man ekki í svipinn. Hann hermir mikið eftir manni og maður getur fengið hann til að segja orð þó hann nái ekki að tileinka sér þau og nota sjálfur.
Hann elskar að láta lesa fyrir sig og fylgist vel með og bendir á myndirnar. Svo les hann sjálfur, opnar bókina og bablar heil ósköp. Dagblaðalestur er í sérstöku uppáhaldi hjá honum og FÍB blaðið er hann búinn að lesa í tætlur.
Ekki er nú barnið skaplaust með öllu, hann er yfirleitt ósköp rólegur og prúður, bara með þessa venjulegu smábarnafrekju sem tilheyrir, en þegar hann verður reiður þá verður hann líka reiður... og þá getur tekið smá tíma að ná honum aftur niður. Og hann hefur ósköp takmarkaða þolinmæði fyrir því að mamma sé í tölvunni, hangir vælandi og kvartandi utan í mér enda óþolandi að svona fyrirbæri taki athygli mömmu... sem fyrir vikið sest sjaldnar niður til að blogga.
Já, hann er bara í alla staði yndislegur strákur sem dafnar ósköp vel og tekur stöðugum framförum og gerir foreldra sína ósköp glaða og hamingjusama.
Og ekki veitir nú af að hafa svona lítinn sólargeisla til að gleðja fótbrotna ömmu og svo líka sjálfan sig á meðan maður glímir við tvo bilaða bíla og einn tjaldvagn, vatnsleka í gömlu íbúðinni og parketlögn í kjölfarið og sumarfríið bara farið í tómar reddingar, engar útilegur og fáar bloggfærslur
Einn kátur búinn að setja bol á hausinn. Hann sá nánast ekkert fram fyrir sig og rambaði um skríkjandi af kæti
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt 17.8.2009 kl. 06:56 | Facebook
Athugasemdir
Gaman að þessu! Helga min þú varst svona líka góð og róleg ekki vandi að passa þig(og ekki Erik heldur!) Nú veitti mér ekki að sólargeisla eins og mömmu þinni var að koma úr hnéaðgeð frá Akureyri núna kl.2 í dag á eftir 6-8 vikur að jafna mig er að birja upp á nítt ónít sumar. Verður vonandi betra næst
Vanandi fara þessar ófarir að ljétta af fjölskyldunum þarna fyrir sunan fljótlega.
Knús knús!
Steinunn og Gunnar (IP-tala skráð) 17.8.2009 kl. 16:30
Já, vonandi er þessari óhappahrinu lokið hjá okkur öllum. Það var mikið að þeir fóru í það að laga á þér hnéð frænka. Vonandi nærðu þér vel af þessu. Og vonandi verður næsta sumar betra hjá okkur öllum.
Kær kveðja frá Helgu stilltu og litla sólargeislanum
Helga Guðrún og Halldór Pálmar, 18.8.2009 kl. 10:42
Takk fyrir þetta, Helgan mín! Gaman að fylgjast með ykkur og rosalega er hann Bjarni duglegur orðinn! Aron er greinilega algjör letihaugur, nennir ekkert að læra að tala ;)
Bjorgen-kjorgen (IP-tala skráð) 19.8.2009 kl. 01:00
Mikið er hann Bjarni Jóhann duglegur - enda á hann kyn til þess ekki satt Bestu kv. að norðan
Hanna F. Stefánsdóttir (IP-tala skráð) 19.8.2009 kl. 16:03
Jú mín kæra Hanna, hann á svo sannarlega kyn til hins mesta dugnaðar Bestu kveðjur norður
Halldór (IP-tala skráð) 21.8.2009 kl. 00:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.