Montblogg

Hér koma nokkrar fréttir af piltinum enda langt síðan mamman montaði sig síðast af unganum.

Bjarni Jóhann er byrjaður í leikskóla. Hann byrjaði 1. des sl. og það gengur svona ljómandi vel. Honum finnst afskaplega gaman að leika sér með krökkunum og er líka til í að taka þátt í allskonar föndri og uppákomum í leikskólanum. Fóstrurnar segja að hann sé algjört draumabarn, stilltur og prúður miðað við aldur og alla jafna í góðu skapi (hvaðan skyldi hann nú hafa það? :O).

Svo tekur hann þvílíkum framförum í máli þessa dagana og er farinn að setja saman einfaldar setningar. Orðum bætir hann við sig nánast daglega og mamman má hafa sig alla við að læra hvað hvert orð þýðir því framburðurinn er náttúrulega eins og við má búast hjá barni sem ekki er orðið tveggja. Dæmi um nýjustu orðin eru epli, snjór, grafa, eðla og púsla en það síðastnefnda er í miklu uppáhaldi hjá snáðanum.  Maður ætlar náttúrulega að rifna af stollti við hvert nýtt orð og kannski best að njóta þess því þess verður ekki langt að bíða að barnið samkjafti ekki, foreldrunum til mismikillar ánægju Smile Með auknum orðaforða breytast jú samskiptin líka og núna er hann farinn að svara manni og segja frá þegar maður t.d. spyr hann hvað hann hafi verið að gera á leikskólanum í dag, sem er afskaplega skemmtilegt.

Hann sönglar líka töluvert og það hefur aukist mikið eftir að hann bryjaði á leikskólanum. Uppáhalds lagið hans núna er afmælissöngurinn og má heyra sungið "ammaídaaa" (afmæli í dag) mörgum sinnum á dag hér á þessu heimili, en það er eina línan sem sungin er úr þessu annars ágæta lagi. Svo er jafnvel klappað og sagt "vei!" á eftir ef stubburinn er í sérstaklega miklu stuði Smile

Hann er stöðugt hlaupandi og hoppandi og skoppandi hér um öll gólf... mikið hvað hopp geta verið skemmtileg! Smile  Að sjálfsögðu fær einkabarnið daglega trampolínþjálfun í hjónarúmminu og hoppar þar og steypir sér kollhnísa af miklum móð. Svo hefur hann uppgötvað furður skuggamynda (þrátt fyrir akkúrat enga hæfileika móður hans á því sviði) og vill fá smá "brabra" sýningu á svefnherbergisveggnum þegar hann tekur sér pásu frá hopperíinu. Svo reynir hann að gera líka brabra á vegginn sjálfur... afksaplega krúttlegt!

Ekki er hægt að segja frá stráknum án þess að minnast á það að amma Dísa og afi Bjarni eru í alveg sérlega miklu uppáhaldi hjá honum. "ha amma?" eða "ha afi?" (ha=hvar er) eru spurningar sem maður má svara nokkrum sinnum á dag. Mikill gleðidans er stiginn þegar þau koma í heimsókn eða ef pilturinn er spurður hvort hann vilji fara og heimsækja þau. Og honum finnst svo gaman að láta þau passa sig að hann nánast ýtir foreldrunum út úr húsi þegar svo stendur á. Ekki amalegt það!

Að lokum er hér ein mynd af stráknum enda ekki annað hægt en að birta mynd af viðfangsefni pistilsins.

IMG_6056 

Eins og sjá má þykir kappanum skyr gott og borðar það með bestu lyst alveg sjálfur eins og reyndar allan mat nú orðið. Eftir slíkar æfingar má svo lesa matseðilinn af andliti og höndum piltsins svo það er allt eins og það á að vera í þeim efnum. Þá er nú gott að eiga nóg af þvottapokum á lítið trýni... Smile
Þess má annars geta að ein af ástæðum þess að lítið er bloggað hér er sú að erfitt er að ná góðum myndum af piltinum þessa dagana. Hann er ekki kominn á fyrirsætualdurinn ennþá og hunsar mann gjörsamlega þegar hann sér myndavélina á lofti. Við eigum því nóg af vanga- og hnakkamyndum af honum en fáar góðar þar sem þetta fallega andlit fær að njóta sín.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svava S. Steinars

Ó hann er svo dásamlega fallegur :)  Og duglegur líka   Enda kippir honum í kynið

Svava S. Steinars, 1.3.2010 kl. 15:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband