Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
3.6.2008 | 22:21
Fleiri myndir frá fyrstu dögunum
Jæja gott fólk, hér koma fleiri myndir af snáðanum. Hann braggast vel, við vorum með hann í 5 daga skoðun í dag og hann stóðst öll próf þar, þar á meðal pissu-prófið því hann gerði heiðarlega tilraun til að spræna á foreldra sína þegar búið var að taka af honum bleyjuna og bleytti dálítið vel í útigallanum sínum. Hann er nánast búinn að ná fæðingarþyngd, vantaði bara 5g upp á.
Brjóstagjöfin fór pínu brösulega af stað enda gleymdist alveg að kenna mér réttu handtökin áður en ég fór heim. Fyrstu sólarhringana svaf ég því nánast ekki neitt því drengurinn var bara stöðugt á brjósti og auðvitað fékk ég sár á tútturnar. Nú erum við búin að fá kennslu í þessu, mjólkin er komin og hann er farinn að sofa 2-3 klst í einu með stuttum brjóstagjafavökum á milli. Svo nú ætti maður að fara að hafa tíma til að gera eitthvað annað en að hafa barnið sogað fast á sig
En sem sagt; myndir:
Kvartað undan lélegri þjónustu...
Mamman kastar frá sér barninu til að graðka í sig.
Því miður eru ekki til margar myndir af Halldóri með ungann en úr því verður bætt nú þegar maður fer að fá meiri svefn og vonandi fleiri starfandi heilasellur í kjölfarið...
30.5.2008 | 15:23
Drengur Halldórsson
Jæja, loksins kom að því! Frumburðurinn, yndislegur drengur, leit dagsins ljós 28. maí kl. 12:08. Búið var að boða mig í gangsetningu kl. 22 um kvöldið en snáðinn ákvað að ráða því sjálfur hvenær hann kæmi í heiminn og setti allt af stað nóttina áður. Ég vaknaði með verki um kl. 3 og um 9 tímum síðar var hann kominn í heiminn. Já, eftir að hafa látið bíða svolítið eftir sér dreif hann sig bara í partýið. Fæðingin gekk vel og við vorum með tvær yndislegar konur með okkur, Grétu ljósmóður og Hrafnhildi ljósmóðurnema. Drengurinn hafði greinilega haft það gott í litlu bumbunni því hann var 16 og hálf mörk og 53 sentimetrar. Þegar hann var kominn í heiminn kom í ljós að hann hafði verið duglegur að hreyfa sig á meðan enn var pláss og sett hnút á naflastrenginn. Já, það er bersýnilega margt hægt að bralla í lítilli bumbu
Það mætti halda að Halldór hefði ekki gert annað en að sinna ungabörnum, svo laghentur er hann með strákinn sinn. Þeir eru alveg yndislegir saman feðgarnir.
En jæja, þá að því sem allir hafa beðið eftir; myndir af stráknum.
Er maður ekki bara sætur svona krumpaður beint úr móðurkviði
Pabbi að athuga hvort það sé ekki allt í lagi með mann.
Á leiðnni heim af spítalanum, þreytt og ánægð með lífið.
Reyfabarn - Björg, þetta teppi er æði - takk aftur
Meira síðar gott fólk...
26.5.2008 | 20:07
Allt bara alls ekki að gerast
Jæja, þá er ég gengin 41 viku og 3 daga og enn er ekkert að gerast. Litli þjóskupúkinn minn ætlar greinilega að láta okkur bíða eins lengi eftir sér og hægt er :O) Ef það veit á jafn gott og raunin hefur verið með Ísak Elí bróðurson minn er ég nú bara ánægð, hann er algjört draumabarn sem bara sefur og borðar og er hinn rólegasti. Pant fá eitt svoleiðs takk :O)
Ég á von á að verða kölluð í gangsetningu í vikunni svo þetta fer nú alveg að bresta á. Næsta færsla verður því vonandi skreytt mynd af frumburðinum.
18.5.2008 | 22:47
Ísak Elí
Nýjasti fjölskyldumeðlimurinn, litli bróðursonur minn, fékk nafn og var skírður þann 1. maí sl. Athöfnin fór fram í Seljakirkju og vorum bara við nánasta fjölskyldan viðstödd. Ég og Silla, systir Andreu, fengum þann heiður að vera skírnarvottar, mjög gaman. Eftir athöfnina var okkur svo boðið í skírnarveislu heim til Eriks og Andreu. Veðrið var yndislegt og maturinn frábær og dagurinn leið hratt í þessum góða selskap. Elsku litli frændi, til hamingju með þetta fallega nafn; Ísak Elí.
Þrjár árvökular systur fylgjast með því að allt fari vel fram.
Stoltir foreldrar með soninn.
Feðgarnir við tertuna. Blái gallinn sem Ísak Elí er í er af pabba hans.
18.5.2008 | 22:17
Dr. Halldór Pálmar
Þann 18. apríl sl. náði Halldór loksins sínu langþráða takmarki; að verja doktorsgráðuna sína í sjávarlíffræði. Eftir svefnlausa nótt, streitufullan morgun og svitastokkin biðtíma í Öskju hófst vörnin loksins, sem snillingurinn rúllaði náttúrulega upp. Það er óhætt að segja að það hafi verið feginn maður sem tók við prófskírteininu sínu eftir rúmlega tveggja tíma vörn, sem og innilegum hamingjuóskum frá öllum sem viðstaddir voru. Það er reyndar ekki laust við að konan hans hafi líka verið svolítið fegin...
Um kvöldið héldum við svo smá veislu sem heppnaðist með afbrigðum vel. Það komu yfir 50 manns í partýið og vitum við ekki annað en að allir hafi skemmt sér vel við mátulega löng ræðuhöld og hin ýmsu tónlistaratriði, flest óundirbúin. Jóhann bróðir Halldórs var sko betri en enginn í veislustjórninni og sá til þess að fjörstuðullinn félli ekki allt kvöldið. Mamma og Magnea vinkona veittu mér ómetanlega hjálp í veislunni og pabbi tók myndir eins og honum væri borgað fyrir það. Maður á svo sannarlega góða að. Hér eru nokkrar myndir frá þessum vel heppnaða degi.
Dr. Halldór ásamt stolltri spúsu og andmælendum sínum, John Widdows og Kristínu Ólafsdóttur.
Addi trúbador sá um tónlistina með dyggri aðstoð söngglaðra gesta.
Guðrún og Reynir ræða sameiginlegt áhugamál: Sandgerði...
Widdows, Jóhann, Logi, Þórhanna, Karen, Ingvar, Gunnar.
Gellurnar í Sandgerði ásamt "pjakknum" og Reyni.
15.5.2008 | 17:23
Allt með kyrrum kjörum
Fyrst að máli málanna: Það er sem sagt ekkert að frétta af bumbubúanum sem er bara hinn rólegasti. Ég er nú heldur ekki sett fyrr en á morgun, 16. maí og hingað til hef ég ekki verið þekkt
fyrir að mæta of snemma í partý og boð og fer nú ekki að byrja á því héðan af. Erfinginn ætlar líka greinilega að erfa "stundvísi" foreldra sinna.
Ég hef það annars bara mjög fínt, er ekki með mikinn bjúg og sef sæmilega (með óteljandi hléum þó) á nóttunni, sérstaklega þegar ég er búin að færa mig fram í sófa. Elsku besti sófinn minn...
Dagarnir líða svo bara við huggulegheit, handavinnu og létt heimilisstörf. Svona á líf óléttrar konu að vera.
Hér er svo ein bumbumynd af mér, komin 40 vikur. Nett? Alveg nógu stór segi ég nú bara...
Vinir og fjölskylda | Breytt 18.5.2008 kl. 21:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.5.2008 | 23:14
Hmmm...
Jæja, þá eru skötuhjúin komin með heimasíðu! Já, hver átti nú von á því?
Það stendur nú ekki til að halda hér úti miklu bloggi, það eru víst nógu margir um það. Nei, hér verða sennilega helst myndir frá því sem okkur þykir fréttnæmt í okkar lífi eins og næstu færslur munu bera vitni.
En fæst orð bera minnsta ábyrgð og því best að lýsa sem minnstu yfir um hvað hér mun fara fram. Ég ætla ekki einu sinni að lofa því að verða duglegri en Erik bróðir að uppfæra...