Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Tóm steypa

Á laugardaginn fyrir viku (um hvítasunnuhelgina) var hóað í mannskap í steypuvinnu fyrir austan hjá mömmu og pabba. Þar standa nefninlega yfir framkvæmdir, það á að reisa þar pall og gestahús. Á ekki einmitt að framkvæma í kreppunni og halda hjólum atvinnulífsins gangandi?
Mamma og pabbi eru búin að hafa einn gröfusnilling í vinnu hjá sér og hann er m.a. búinn að undirbúa jarðveginn sem fer undir pallinn og húsið og bora holur fyrir undirstöðurnar.

IMG 3604
Tveir eins hella fyrstu steypunni í rörin fyrir undirstöðurnar. Strákarnir voru búnir að keyra möl í allar holurnar viku fyrr svo þær voru tilbúnar fyrir steypuna og rörin. Takið eftir hvað þeir eru flottir svona í stíl, báðir í pollagöllum úr Rúmfó sem kom svo í ljós að eru alls ekki hannaðir til að fólk hreyfi sig í þeim því þeir voru báðir ónýtir áður en dagurinn var hálfnaður. Þeir rifnuðu sem sagt við minnsta átak. Örugglega fínir fyrir myndastyttuleik í rigningu en ekki mikið meira...

IMG 3605
Bjössi smiður fylgist með piltunum og mamma fylgist spennt með úr eldhúsglugganum.

IMG 3607
Pabbi og Bjössi smiður stilltu alla hólkana af og festu þá áður en þeir voru fylltir af steypu. Enginn skakki turn reistur hér takk fyrir.

IMG 3658
Biggi hrærði steypu af miklum móð allan daginn. Hér fær Erik vænann steypuskammt í hjólbörurnar, sem var sko ekki heiglum hent að keyra á réttan stað - ógeðslega þungt!! Einar hennar Jónínu móðursystur var líka í steypuhræringum um morguninn en hann var farinn þegar þessi mynd var tekin.

IMG 3630
Bjarni Jóhann fylgdist spenntur með vinnufólkinu ásamt ömmu sinni. Held hann hafi mest langað til að fá að vera með í hamaganginum.

IMG 3637
Vinnumaurar fá smá pásu og næringu í hádeginu. Frá vinstri Smári (gestamaur), pabbi (yfirmaur), Erik (hjólbörumaur), Biggi (steypumaur), Bössi (smíðamaur) og Halldór (hjólbörumaur). Á myndina vantar Einar steypumaur sem var nýfarinn og svo mig - skóflumaur. Mamma eldhúsmaur sá náttúrulega um kaffi og passaði strákinn - litla hnoðmaurinn minn.

IMG 3660
Skóflumaurinn mokar í gríð og erg...

IMG 3666
Tveir vinnumaurar bættust svo í hópinn upp úr hádegi, Jónína frænka og Hákon sonur hennar. Þau voru sko betri en enginn!! Amma mín og afi komu með þeim og lögðu líka sitt af mörkum, amma bakaði vöfflur og afi passaði Bjarna Jóhann á meðan.

IMG 3667
Það er alltaf gaman með afa og ömmu, hér fær afi koss... InLove

IMG_3662
Hér má sjá hluta af dagsverkinu, undirstöðurnar við hlið hússins en þar kemur pallur og gestahús. Pallurinn nær svo bæði fyrir aftan húsið og framan það og þar voru líka steyptar undirstöður.

Já, mikil er framkvæmdagleðin og ég held að allir hafi farið glaðir heim ánægðir með gott dagsverk.


Halló Guðrún Helga!!

Barni Jóhann fékk þennan líka fína síma frá Guðrúnu Helgu frænku sinni í Svíþjóð. Hann var ekki lengi að slá á þráðinn til hennar og blaðraði þessi ósköp í símann Smile Takk kærlega fyrir gjöfina frænka!!

DSC07548


Kaffiþyrstur

Nú þegar maður er orðinn eins árs er ekki seinna vænna en að fara að taka til við kaffidrykkjuna... sjáið bara hvað maður ber sig fagmannlega að - enda með góða fyrirmynd á heimilinu... Grin

DSC07520


Og svo var haldin veisla...

Annan í hvítasunnu héldum við upp á afmælið hans Bjarna Jóhanns. Þá var nú aldeilis glatt á hjalla og pilturinn naut sín vel innan um allt fólkið enda mikill partýmaður.

IMG 3715
Afmælissöngurinn var að sjálfsögðu sunginn og það þótti Bjarna Jóhanni afar merkilegt; allir að syngja og horfa á hann á meðan! Mjööög skrítið! Svo hjálpaði mamma honum að blása á kertið á kökunni svo partýið gæti nú byrjað!

IMG 3731

Rakel Jóhanna frænka hjálpaði Bjarna Jóhanni við að taka upp alla fínu pakkana sem hann fékk. Að sjálfsögðu fylgdust aðrir spenntir með!

IMG 3724
Ísak Elí gat gefið frænda sínum góð ráð í þessu öllu saman enda nýbúinn að halda svona veislu sjálfur með smá aðstoð frá mömmu sinni henni Andreu.

IMG_3707
Það er svo sannarlega ekki amalegt að geta tekið á móti gestum án þess að þurfa að stafla... þvílíkur munur að vera komin með svona stóra stofu!

Að endingu er hér ein brosmynd af piltinum tekin við annað tækifæri - hérna setur hann upp sparibrosið sitt - hrikalega krúttleg gretta Grin

DSC07551


Bjarni Jóhann eins árs!!

Já, þá rann dagurinn upp, litla barnið okkar er orðið eins árs patti. Hann ákvað að taka daginn snemma, vaknaði galvaskur kl. 5 og harðneitaði að fara að sofa aftur þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir móður hans til að koma honum í ró. Svo við fórum þá bara fram að leika...

DSC07525

... og það fannst stubbaling sko ekki leiðinlegt!

DSC07529

Svo þurfti náttúrulega að knúsa og kyssa nýjasta vininn sinn, tuskuhundinn frá ömmu og afa sem fengið hefur nafnið Mosi því hann mjúkur eins og mosaþemba. Bjarni Jóhann er mikill hundakall og þó honum þyki alvöru hundar meira spennandi er Mosi bæði sætur og ó svo mjúkur mjúkur mjúkur...

 

DSC07536

Auðvitað fékk stóri strákurinn nokkra pakka í dag, hér er hann með sirkusmúsina frá mömmu sinni og pabba...

DSC07544

... og hér er hann að taka utan af forláta bíl frá ömmu og afa. Svo fékk hann líka ferlega sætan hund til að draga, frá Steinu frænku og Gunna.

Þegar þetta er skrifað sefur litla afmælisbarnið sætum blundi eftir annasaman en góðan afmælisdag. Ef hann hefði vit á því myndi hann örugglega dreyma um afmælisveisluna sína, alla pakkana sem hann veit ekki að hann langar í og súkkulaðiafmæliskökuna sem hann hefur aldrei bragðað...

 


Nokkrar myndir

 

DSC07474 
Stundum er bara voða gaman í matartímanum, t.d. þegar maður fær svaka gott epli að borða.

DSC07489
Sá stutti setti sjálfur derhúfu pabba síns á sig og labbaði um með hana voða montinn.

DSC07434
Og svona sefur maður nú vært og rótt alveg sjálfur í sínu herbergi, ofan á sænginni og með fína teppið frá Magneu ofan á sér.


Tvö í sumarblíðu

DSC07481


Af ungum pilti...

Bjarni Jóhann á nú einungis tvær vikur í eins árs afmælið sitt. Það þýðir ekki einungis að nú er liðið ár frá því að móðir hans kjagaði um með litla kúlu með stóru barni í sem hún beið eftir að kæmi loksins í heiminn, heldur er hann líka heldur betur að verða stór strákur. Hann er búinn að taka fyrstu skrefin sín, gerði það í gær þegar hann gekk frá náttborðinu að rúminu og uppskar mikinn fögnuð frá pabba sínum og mömmu sem voru svo heppin að vera bæði að horfa á hann. Því miður erum við ekki búin að ná afrekinu upp á myndband en hér er hann að æfa ganginn með skemil sér til halds og trausts:

Annað þroskamerki sem er öllu meira krefjandi fyrir foreldrana er frekjugangur sem verður æ meiri með hverjum deginum. Nú er bara öskrað og grenjað með tárum og alles ef sá stutti fær ekki það sem hann vill Smile Hann er líka farinn að segja nokkur orð, hið klassíska "datt", "bah" fyrir bað, "nanana" fyrir namm namm, "ai" fyrir afi og svo purrar hann fyrir bíla svo það helsta sé nefnt. En þó að pilturinn kunni ekki að tala neitt að ráði ennþá þá er ekki þar með sagt að hann þegi bara blessaður. Aldeilis ekki! Hér er smá myndband af honum að "messa" yfir okkur pabba hans við matarborðið. Svona ræður heldur hann af og til yfir daginn og er greinilega mikið niðri fyrir. Mikið ræðumannsefni þarna...

Hér er svo ein kjútípæ mynd af elsku snáðanum, sem þrátt fyrir allt öskur, grenj og frekjuvæl er auðvitað bara besta og fallegasta barn í heimi InLove

DSC07387


Afmæli hjá Ísak Elí

Þessi myndarpiltur átti afmæli um daginn, nánar tiltekið 4. apríl. Þá var að sjálfsögðu boðið í afmæli og afmælisbarnið bar þessa líka fínu afmæliskórónu. Ísak Elí bauð svo upp á dýrindis kökur og aðrar veitingar og þáði afmælispakka eins og vera ber. Það var greinilegt að þetta var strákaafmæli því upp úr nánast öllum pökkum kom bíll Smile

DSC07352

DSC07358
Afmælisbarnið hefur það notalegt innan um gömlu bílana hans pabba síns. Ef maður á ekki að hafa það notalegt á afmælinu sínu, ja.. hvenær þá?

DSC07354
Helena stóra systir og frænka.

DSC07364
Gvöð hvað þetta eru miklar dúllur!! Stóra skvísan okkar hún Helena með sólgleraugun sín og nýju garðhanskana, Bjarni Jóhann með kolamolana sína og afmælisbarnið Ísak Elí með himinbláu augun sín. Systkinin eru nú eins og sjá má öllu hárprúðari en afkvæmi mitt enn sem komið er...

Og svo er hér að lokum eitt myndband af frændunum saman. Ísak Elí er svoooo góður við litla frænda InLove Og takið líka eftir Helenu í bakgrunninum, hún fór út með vatsbyssu og var svo að sprauta á strákana í gegnum glerið, þeim til mikillar skemmtunar Grin


Bjarni Jóhann heilsar heiminum á ný

 

Já hæ allir saman og takk fyrir að nenna ennþá að kíkja hingað inn þrátt fyrir að laaaangt sé síðan eitthvað var hér að hafa síðast!
Nú erum við sem sagt flutt og komin í síma- og netsamband á ný. Fyrir þá sem ekki vita tókum við sem sagt upp á því að taka á leigu 100fm íbúð í Flúðaselinu, "bara" helmingi stærri íbúð en okkar í Austurberginu. Og vááá! þvílíkur munur á plássi! Við erum öll alsæl með þetta og erum að koma okkur fyrir í rólegheitunum. Ég segi ykkur kannski betur frá íbúðinni seinna en ég þykist vita að það sé meiri áhugi á þessu hérna núna:

DSC07346
Já maður getur nú brosað til mömmu sinnar...

DSC07388
Jón bóndi gáir til veðurs í Austurberginu. Þetta gerði hann reglulega yfir daginn eins og sönnum bónda sæmir, en því miður nær glugginn á svalahurðinni hérna á nýja staðnum ekki svona langt niður svo allar veðurpælingar hafa dottið niður í bili.

DSC07325
Litla risaeðlan að leika... ég væri alveg til í að geta gert þetta...

DSC07326
Hahahahahahaha... er það nú grín!!

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband