Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
10.10.2008 | 10:16
Alvöru verðmæti
Mitt í öllu fjármálafárviðrinu og krepputalinu er mikilvægt að muna hvað er manni dýrmætast í lífinu...
Stóru ástirnar í lífinu, fjölskyldan og vinirnir...
... og góðar stundir með þeim...
... litlir fallegir sólargeislar...
... sem elska að naga á sér puttana...
... litlir súpersætir súkkulaðimunnar...
... notalegar stundir í baði með góða bók og önnur almenn huggulegheit...
... og svona mætti lengi telja. Og það besta er að dýrmætustu hlutirnir kosta ekki krónu...
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.10.2008 | 17:58
Prjónahúfur á snáðann
Eins og þeir sem mig þekkja geta gert sér í hugalund þá þykir mér ekki leiðinlegt að geta nú loksins farið að prjóna/hekla/sauma eitt og annað á mitt eigið barn. Aumingja barnið hefur víst lítið um það að segja ennþá og verður bara að láta það yfir sig ganga að fá prjónapottlok á hausinn, allt of stóra sokka á fæturnar og heklaða smekki úr afgangsgarni um hálsinn svo eitthvað sé nefnt. Eitthvað á kella af prjónapeysum í skúffunum og nóg er af garni í gvendabrunnum svo væntanlega verður ekkert lát á þessu á meðan móðir snáðans fær að ráða í hvaða spjarir barnið fer. Svona til að gefa fólki hugmynd um hvað stakkels barnið þarf að líða fyrir þessa iðjusemi móður sinnar set ég hérna að neðan inn myndir sem furðulostinn faðirinn tók af snáðanum með húfutetrin sín úr prjónasmiðju móðurinnar.
Mér sýnist hann nú bara nokkuð montinn með Sigurrósar húfuna sína
Og ekki er hann minna ánægður með þessa, honum fannst t.d. ekki við hæfi að vera með smekk við svona fína húfu... Mömmu hans finnst hann líka ferlega sætur með þessa og notar hana mikið.
Hver veit nema fleiri flíkur verði sýndar hér síðar svo bíðið spennt.... eða ekki
2.10.2008 | 13:40
Í berjamó
Við fórum í berjamó um daginn með Jóhanni og Karen og þeirra börnum. Bjarni Jóhann var hinn rólegasti og fékk sér m.a. blund í berjalynginu. Jóhannsbörn voru í essinu sínu og nutu þess að skríða um móana í berjaleit. Afraksturinn hjá okkur Halldóri var nú ekkert til að hrópa húrra yfir en við náðum þó bláberjum í nokkra skyrskammta og svo tíndi Halldór fullan dall af krækiberjum handa sér.
Bjarni Jóhann hjálpar mömmu sinni að tína ber.
Rakel Jóhanna auglýsir kítlustrá og fleira til sölu - enda hægt að gera góðan "bissnes" með ber sem gjaldmiðil.
Stefán Karl gefur Skottu ber. Hún var hins vegar þá þegar búin að éta nægju sína beint af lynginu og hafði því takmarkaðan áhuga á þessari góðvild kappans.
Vinir og fjölskylda | Breytt 10.10.2008 kl. 17:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.10.2008 | 23:26
Út að sofa
Eins og sönnum Íslendingi sæmir þykir Bjarna Jóhanni best að sofa úti í vagni á daginn þegar hann tekur sér lúr. Og ekki spillir það fyrir notalegheitunum að vera settur í 35 ára gamlan vagn sem dúar notalega við minnsta andvara (þeir kunnu að gera fjöðrun í þá daga...) dúðaður ofan í splunkunýjan svefnpoka. Ég er ekki frá því að mamma hans öfundi hann pínulítið þegar hann er kominn ofan í notalegheitin en hún er víst búin með sína vist í þessum vagni fyrir margt um löngu...
24.9.2008 | 22:09
Nýjustu tölur og nafnakaffi.
Ég fór með Bjarna Jóhann í fjögurra mánaða skoðun í dag og hér eru nýjustu tölur: þyngd 7560g, lengd 67cm. Strákurinn þrífst sem sagt vel hjá okkur
Á laugardaginn síðasta héldum við veislu honum til heiðurs, nafnakaffi. Við ætlum ekki að láta skíra hann en vildum samt halda upp á nafngjöfina og stefndum því okkar nánasta fólki heim til mömmu og pabba í Kleifarselinu. Þessar elskur lánuðu okkur nefninlega húsið sitt fyrir herlegheitin enda erfitt að bjóða um 30 manns hingað í litlu íbúðina okkar Skemmst er frá að segja að veislan heppnaðist ákaflega vel enda er þetta allt svo vel upp alið og prútt fólk. Bjarni Jóhann fékk margar góðar gjafir og fullt af knúsi frá fólkinu sínu. Hér eru nokkrar myndir úr veislunni.
Namminamminamminamm.... súkkulaðikaka í dulargervi...
Stoltir foreldrar með ungann sinn.
Ísak Elí aaaagóður við afa Bjarna.
Bjarni Jóhann og Niuvis vinkona.
Jóhann og Karen spjalla við piltinn. Greinilega gaman hjá þeim.
Andri, Kristófer og Fannar á góðri stundu.
Snáðinn hjá Stefáni Karli stóra frænda....
.... og hjá Arndísi Snjólaugu stóru frænku.
21.9.2008 | 21:59
Ísak Elí kominn í setuliðið
Ísak Elí stóri frændi er kominn í setuliðið. Hann er núna tæpra sex mánaða og er farinn að sitja óstuddur fyrir nokkru. Jafnvægið er þó ekki orðið alveg hundrað prósent og því vissara að hafa nokkra púða til að taka af manni fallið þegar eitthvað truflar einbeitinguna . Oooo, þetta er svo fallegur og duglegur drengur sem Erik og Andrea eiga, sjáið bara!:
Mér finnst eiginlega ótrúlegt til þess að hugsa að litli snáðinn minn verði orðinn svona stór og duglegur eftir bara nokkrar vikur - og þó ekki, því í hverri viku gerir hann eitthvað nýtt sem mömmu hans og pabba þykir náttúrulega afskaplega merkilegt og einstakt! Bobbi; það er gleðin yfir litlu kraftaverkunum sem þá ræður ríkjum ekki satt!
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.9.2008 | 21:45
Nýjasta æðið!
Nýjasta æðið hjá snáðanum þegar hann er á skiptiborðinu er að grípa í tærnar á sér. Þetta gerir hann gjarnan um leið og ég kippi af honum sokkum/sokkabuxum og hjalar þá gjarnan á meðan hann sleppir og grípur um tærnar. Þetta er náttúrulega hin besta leikfimi hjá honum og spurning hvort maður ætti að fara að fordæmi hans og taka þetta upp þegar maður háttar sig á kvöldin?
Svo er hérna myndband til skemmtunar af Bjarna Jóhanni í hláturskasti yfir mömmu sinni.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.9.2008 | 14:04
Ungbarnasund
Þeir sem þekkja Halldór vita að þar er á ferð mikill sportisti sem stundaði af kappi hinar ýmsu íþróttir allt þar til Háskólanámið heltók hann. Það ætti því ekki að koma á óvart að hinn rúmlega þriggja mánaða sonur okkar sé nú þegar byrjaður í íþróttunum. Við erum byrjuð að fara með hann í ungbarnasund hér í Breiðholtslauginni, á laugardagsmorgnum og það er bara alveg frábært.
Bjarni Jóhann kann afskaplega vel við þetta, hann er ekkert hræddur við vatnið eða lætin en setur upp hinn mikla doktorssvip og spáir mikið í umhverfið.
Hér er hann kominn ofan í með mömmu sinni, sem er greinilega að segja eitthvað merkilegt við hann. Annars skiptumst við á að vera með hann ofaní, þó pabbi sé þar í aðalhlutverki. Hann brá sér bara upp á bakkann til að taka þessar myndir blessaður.
Sundkennarinn heitir Lóló og hún kemur og talar við alla krakkana í byrjun og enda hvers tíma. Þá spjallar hún aðeins við þau og lyftir þeim síðan upp og lætur þau standa, þ.e. þau þeirra sem það vilja og geta. Bjarni Jóhann er ekki alveg orðinn nógu styrkur til að standa lengur en sekúndubrot í einu í lófanum á henni Lóló, en það kemur allt, þetta var nú bara annar tíminn okkar. Pabbi náði mynd af snáðanum þar sem hann stendur næstum því í öruggum höndum Lólóar .
Svo er sungið og trallað saman í lauginni og nokkrar æfingar gerðar. Meðal þeirra er að láta börnin fljóta á bakinu og halda bara undir hnakkann á þeim. Þetta þykir Bjarna Jóhanni afskaplega gott, hann slappar alveg af og sýgur svo á sér puttana til að toppa notalegheitin.
Hefur maður það ekki gott? Svo undir lok tímans eru þau höfð upp við bakkann þar sem þau eiga að reyna að ná í dót sem maður setur fyrir framan þau. Bjarni er ekkert sérlega duglegur í þessu, hann starir bara í forundran á gúmmíendurnar og baðtærnar sem maður raðar á bakkann fyrir hann en reynir ekkert til að ná þeim. Í dag tókum við uppáhalds nagdóttið hans með til að hvetja hann en það skilaði litlum árangri. Þetta er svoddans prófessor, spáir bara og spekúlerar.
Svo þegar búið er að syngja bless sönginn og vögguvísuna úr Dýrunum í Hálsaskógi þá er bara að drífa sig upp úr, láta pabba klæða sig í fötin og fá sér svo sopa hjá mömmu áður en maður sofnar værum svefni, úrvinda eftir sundið.
Og svo er hérna ein brosmynd tekin við annað tækifæri enda fer lítið fyrir brosum í sundtímanum - það er hreinlega bara of mikið um að vera til að gefa sér tíma til að brosa til myndasmiðsins...
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)