Dýrin mín stór og smá

Eins og áður hefur eflaust komið fram hér er Bjarni Jóhann mikill dýrakall. Maður verður að passa hann vel því hann rýkur hiklaust á allt loðið sem á vegi hans verður til að fá að klappa. En það eru ekki bara loðnir ferfætlingar sem heilla, heldur eiginlega bara öll dýr sem hann hefur séð hingað til.

IMG 4955

Hér er hann að skoða hornsíli sem svamla kát um í félagsskap kúluskíts. Myndin er tekin á bás Náttúrufræðistofu Kópavogs á Vísindavökunni sem haldin var í september. Áður hafði hann skoðað af miklum áhuga ýmis sjávardýr á básnum hjá pabba sínum og æðakollu í næsta bás svo eitthvað sé nefnt. Því miður náðust engar skemmtilegar myndir af þeim athugunum piltsins. En ætli hér sé upprennandi líffræðingur á ferð?


Baa!!

 

IMG 5060
Það er ekki leiðinlegt að baða Bjarna Jóhann. Hann hreinlega elskar að fara í bað barnið og þá er rútínan einhvernvegin svona:
Mamman: "Bjarni, viltu fara í bað?"
Barnið svarar "BAA!! BAA! BAA!", tekur undir sig stökk og þýtur fram á bað þar sem hann staðnæmist fyrst við baðkarið, endurtekur orðið BAA! og fer svo í baðskápinn og tínir fram allt baðdótið sitt sem þar er geymt ásamt þvottastykki.
Á meðan lætur mamman renna í baðið og tekur svo til við að klæða stilltasta barn í heimi úr fötunum. Þetta eru nemlig einu skiptin sem litli ormurinn er kyrr á meðan hann er afklæddur.
Svo er barninu snarað í baðið og þar dundar hann sér við ýmsar rannsóknir á eiginleikum vatns sem útheimta náttúrulega mikinn buslugang, þar til móður hans þykir mál til komið að veiða hann aftur upp úr og koma honum á þurrt.
Og eins og sjá má á myndinni getur það nú bara líka verið skemmtilegt...


Gaur með lambhúshettu

DSC07727
Bjarni Jóhann er stöðugt að færa sig upp á skaftið. Um daginn var hann að leika einn inni í herbergi þegar hann fór að kalla á mig. Þá stóð hann voða stoltur í vagninum sínum og ruggaði sér fram og til baka og fannst hann voða sniðugur. Mamma hans var ekki jafn hrifin og sá bara í anda fyrstu slysóferðina nálgast óhugnanlega hratt...

DSC07735a
Hér sýnir módelið nýjustu prjónaflíkina á heimilinu - hlýja og góða lambhúshettu enda alveg komið veður fyrir svoleiðis. Hann er alveg súper sætur með hana eða það finnst mömmu hans allavegana og er bara ánægð með verkið.


Alltaf gaman í sveitinni

IMG 4709
Hér er stubburinn á leiðinni í sveitina. Pabbi er afturí á leiðinni til að halda honum félagsskap svo hann sofni ekki á leiðinni. Þá getur nú verið gaman að fara yfir það hvað dýrin segja og gera...

IMG_4711
...og svona gera svínin Cool

IMG 4730
Þetta er eitt af því skemmtilegra sem snáðinn gerir - róla. Enda bjó hann til sitt eigið orð yfir það, eitt af fyrstu orðunum sem hann sagði er orðið "buvva". Og það hefur gerst nokkrum sinnum í sveitinni að það fyrsta sem hann segir þegar hann vaknar af daglúrnum sínum er "buvva".

IMG 4721
Svo er líka rosalega gaman að leika á pallinum og ekki skemmir nú fyrir þegar maður fær að sulla svolítið með fílinn.

IMG 4540
Svo er það náttúrulega toppurinn þegar Helena og Ísak Elí eru líka í sveitinni. Þá er mikið leikið saman og hér eru Helena og Bjarni Jóhann að hafa það huggulegt saman í tjaldinu.

IMG 4544
Stundum er líka gott að slaka pínu á eftir annasaman dag. Strákarnir halda reyndar að þeir hafi óendanlega orku og bara nokkrum andatökum eftir að þessi mynd var tekin voru þeir komnir á fullt að leika sér aftur. En eru þetta ekki bara algjörar dúllur?

IMG 4493
Svo fylgir því líka að vera í sveitinni að fá ýmislegt sem ekki fæst hversdags. Hér hefur pilturinn það heldur betur huggulegt með Svala, sem er eitt af því sem mamma hans neitar honum um svona dags daglega. Það er óþarfi að taka það fram að honum fannst þetta sykursull náttúrulega afskaplega gott...


Lítill byggingameistari

Svona er maður nú orðinn duglegur að kubba. Þennan turn byggði strákurinn alveg sjálfur, fyrir utan bláu kubbana neðst.

IMG 4673

Enda lætur hann sig ekki muna um það að aðstoða mömmu sína við að setja nýja stólinn hans saman. Hjálpa mömmu að skrúfa...

IMG 4860

...og herða svo allar skrúfurnar svo þetta sé nú örugglega vel fest.

IMG 4867

Og svo er bara að prófa stólinn...

IMG 4869

Ekki leiðinlegt!!


IMG 4426

Hæ elskurnar. Eruð þið nokkuð búin að gleyma mér? Mamma ætlar að setja inn nokkrar myndir næstu daga svo endilega fylgist með Smile


Nokkrar myndir

Maður kann sko að brosa í myndavélina... ekki veit ég hverjum barnið er líkt þegar það setur upp þennan svip - einhverjar hugmyndir?

DSC07696

Svo er maður upprennandi lestrarhestur. Hér er snáðinn búinn að fá sér sæti í nýmáluðu hillunni sem mamma hans og pabbi voru að setja upp inni í vinnuherbergi. Bókin sem hann les er gömul frönsk vasaorðabók. Kannski kappinn ætti að byrja á því að ná almennilegum tökum á íslenskunni áður en hann ræðst í nám á öðrum tungumálum...

DSC07688

Hér er ein mynd af okkur pabba að leggja túnþökur í sveitinni fyrr í sumar. Þetta tún er orðið hinn blómlegasti sparkvöllur sem þarf nauðsynlega á heimsókn slátturvélar að halda. Samt er búið að slá það einu sinni nú þegar. Spurning um að fá sér eins og eina rollu næsta sumar..?

IMG 4196

Og hér erum við Bjarni Jóhann að máta nýja pallinn sem verður á milli gamla og nýja hússins í sveitinni. Þetta á eftir að verða góður sólbaðsstaður og svo verður heiti potturinn líka þarna einhversstaðar. Mmmm... upprennandi sælureitur.

IMG 3919

Læt þetta duga í bili elskurnar....


Sætar systur

Rakel Jóhanna og Tara Rós Jóhannsdætur eru ekkert smá sætar systur!! InLove

IMG 4018

Bjarna Jóhanni finnst afskaplega gaman að leika við þær því þær eru ekki bara sætar heldur skemmtilegar líka!


Af einu og öðru

Jæja, áfram líður tíminn eins og óð fluga. Strákurinn okkar dafnar vel og tekur stöðugum framförum. Núna hleypur hann t.d. um allt, reynir að hoppa en nær ekki að lyfta báðum fótum í einu - ferlega krúttlegt - dillar sér og snýr sér í hringi þegar hann heyrir skemmtilega tónlist, eða tekur danssenu fyrir framan ofninn í eldhúsinu þar sem hann sér sjálfan sig speglast í hurðinni Smile Skemmtilegast er þó að hoppa í hjónarúminu og reyna að stinga sér kollhnís eða láta sig pompa á rassinn.
Svo kann hann "upp upp upp á fjall...", þ.e. lyftir höndunum upp yfir höfuð og setur þær svo í gólfið þegar maður syngur "niður niður..." Hann dansar líka við "dansi dansi dúkkan mín" og "upp á grænum grænum himinháum hól..." en það eru aðeins flóknari hreyfingar og hann gerir bara nokkrar ennþá.
Hann er líka voða duglegur að leika sér, getur dundað sér heil lengi ef hann dettur í stuð en stundum vill hann bara þvælast í löppunum á mömmu sinni. Svo er afskaplega gaman að fara í boltaleik með pabba og hann hreinlega elskar að vera úti að leika og getur mokað og rólað nánast út í hið óendanlega. Og ekki er nú verra að hafa krakka til að leika við - nú eða þá fullorðna.
Orðaforðin eykst stöðugt, núna segir hann mamma, pabbi (baba), amma, afi (ai), nei (nenenenene), nammi (mammm mammm mammm), róla (buva), jæja, óóó, datt, ulla, dudda, segir hvað bíllinn, flugvélin, fíllinn, hesturinn, hundurinn, kisa, apinn, ljónið, fiskurinn, bíbí og uglan segir/gerir, gerir tákn fyrir meira (sem þýðir reyndar í hans huga "gemmér", notar það þegar hann vill eitthvað), kinkar kolli fyrir já og ýmislegt fleira sem ég man ekki í svipinn. Hann hermir mikið eftir manni og maður getur fengið hann til að segja orð þó hann nái ekki að tileinka sér þau og nota sjálfur.
Hann elskar að láta lesa fyrir sig og fylgist vel með og bendir á myndirnar. Svo les hann sjálfur, opnar bókina og bablar heil ósköp. Dagblaðalestur er í sérstöku uppáhaldi hjá honum og FÍB blaðið er hann búinn að lesa í tætlur.
Ekki er nú barnið skaplaust með öllu, hann er yfirleitt ósköp rólegur og prúður, bara með þessa venjulegu smábarnafrekju sem tilheyrir, en þegar hann verður reiður þá verður hann líka reiður... og þá getur tekið smá tíma að ná honum aftur niður. Og hann hefur ósköp takmarkaða þolinmæði fyrir því að mamma sé í tölvunni, hangir vælandi og kvartandi utan í mér enda óþolandi að svona fyrirbæri taki athygli mömmu... sem fyrir vikið sest sjaldnar niður til að blogga.
Já, hann er bara í alla staði yndislegur strákur sem dafnar ósköp vel og tekur stöðugum framförum og gerir foreldra sína ósköp glaða og hamingjusama.

Og ekki veitir nú af að hafa svona lítinn sólargeisla til að gleðja fótbrotna ömmu og svo líka sjálfan sig á meðan maður glímir við tvo bilaða bíla og einn tjaldvagn, vatnsleka í gömlu íbúðinni og parketlögn í kjölfarið og sumarfríið bara farið í tómar reddingar, engar útilegur og fáar bloggfærslur Smile

DSC07652
Einn kátur búinn að setja bol á hausinn. Hann sá nánast ekkert fram fyrir sig og rambaði um skríkjandi af kæti Grin


Svooo þreyttur...

IMG 3980

Eftir annasaman dag verður maður oft ansi þreyttur. Svo getur maður líka orðið voða þreyttur á því að bíða eftir foreldrum sínum sem eru að reyna að drífa sig af stað í sveitina eins og raunin var þegar þessi mynd var tekin. Enda var afskaplega gott að fá sér blund í bílnum á leiðinni...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband